Það er frekar einfalt mál að halda utan um hluthafaskrá einkahlutafélags en á síðustu árum höfum við, hjá Kóða, þurft að uppfæra hluthafaskrána okkar nokkrum sinnum. Við höfum meðal annars framkvæmt hlutafjáraukningu, sölu á hlutabréfum, gefið út jöfnunarbréf, lækkað hlutafé og gefið út valrétti. Stjórn og hluthafar eru með forkaupsrétt af nýjum hlutum og þegar við á þarf að fá undirritun frá öllum til að láta hlutina ganga. Þetta getur tekið ansi mikinn tíma frá mikilvægari málum svo ekki sé talað um kostnaðinn við aðkomu lögfræðinga og endurskoðenda.
Það hefur lengi blundað í okkur að leysa þetta mál með því að smíða kerfi sem heldur utan um hluthafaskrána. Fyrir allmörgum árum rákumst við á bloggfærslu frá Hjálmari Gíslasyni (DataMarket og GRID) en þar skrifaði hann um nákvæmlega þetta vandamál. Hjálmar, eins og honum einum er lagið, gekk lengra og deildi Excel skjali sem við höfum notað síðan.
Nú er komið að næsta skrefinu. Við erum nefnilega að vinna í því að þróa kerfi sem gæti komið í staðinn fyrir Excel skjalið frá Hjálmari. Kerfið mun eiga heima á léninu https://www.hluthafaskra.is og í anda framþróunar og samvinnu þá verður fyrsta útgáfa kerfisins ókeypis fyrir alla.
Í fyrstu útgáfu kerfisins verður hægt að:
– Geyma allar nauðsynlegar upplýsingar um hluthafa fyrirtækis
– Uppfæra hluthafaskrá með auðveldum hætti
– Sem hluthafi eða hagsmunaaðili fá aðgang að hluthafaskrá félags.
Eins og stendur bjóðum við áhugasömum að skrá sig á póstlista. Þeir sem skrá sig á póstlistann verða fyrstir í röðinni þegar við setjum kerfið í loftið.